Og nýtt ár!


Já, það er sannarlega ekki hægt að segja að ég sé búinn að vera duglegur að skrifa hérna á síðuna eftir að við fluttum út. Ein færsla og búið?

Við erum búin að koma okkur sæmilega vel fyrir, það er hitt og þetta sem við erum þurft að þurfa að hugsa fyrir, þó að íbúðin kom fullbúin þá er það ekki alveg 100% að það passi fyrir okkur eins og raun bar vitni. Við erum til að mynda búin að bæta við nokkrum tólum og tækjum í eldhúsið, keyptum nýja dýnu frá IKEA í rúmið okkar þar sem sú sem var fyrir var allt of mjúk fyrir okkur. Við byrjuðum að vísu á því að versla bara þykka yfirdýnu til að sjá hvort það myndi duga eða ekki, sem var svo ekki raunin. Þannig að nú er gamla dýnan bara inn í gestaherbergi ef við þurfum á auka dýnu að halda down the line.

Vinnan

Hún gengur enn vel, skrítið samt að vera 1-2 klst á undan tímanum á Íslandi, sem þýðir að yfir veturinn er ég að vinna (á Spænskum tíma) frá 9-18 virka daga (9-17 á föstudögum) en á sumrin er það aðeins verra því þá er ég 10-19/10-18 þar sem það er tveggja tíma munur þá. En þetta hefur gengið nokkuð vel þrátt fyrir það, og á sumrin er sólin líka ansi lengi uppi þannig að ég missi ekkert af henni ;)

Veðrið já..

Já, það er enn jafn gott veður, að vísu mikið svalara í íbúðinni en við gerðum okkur grein fyrir eða áttum von á. Hitastigið úti hefur verið að fara frá 13-20°C og á nóttunni niður í kannski 8-9°C, en í íbúðinni erum við með á bilinu 16-21˚C eftir hvar er mælt. Við erum með lítinn olíufylltan rafmagnsofn sem við erum með inn í svefnherbergi þegar við sofum en annars hér inn á skrifstofu yfir daginn, aðra kyndingu erum við í raun ekkert að nota í íbúðinni. Loftkælingin í stofunni býður upp á að blása út 30°C heitu lofti, en við erum mjög takmarkað þar frammi. Það er einmitt svalast í því rými yfir daginn (um 16°C). En þetta er fínt, þetta vekur mann vel á morgnanna þegar maður nær sér í eitthvað úr eldhúsinu ;)

Annars erum við bara búin að læra það að sokkar og inniskór eru vinir okkar þar sem öll íbúðin er flísalögð, húsin hérna úti eru meira hönnuð í að kæla frekar en að halda hita sem er mjög skiljanlegt miðað við hitann sem er hérna á sumrin.

Urður, Verðandi og Skuld

Ég lofaði sjálfum mér að ég ætlaði að vera duglegur í ár að setja inn færslur á vefina mína tvo, allavega 52 færslur yfir árið (mv. eina færslu á viku). Sem auðvitað er ekki búið að gerast ennþá, en ég ákvað að leyfa mér að hafa þetta þannig að það er ekki lágmark að setja eina inn á viku heldur að í heildina verði færslurnar allavega 52 yfir árið. Það gefur mér smá gálgafrest og það er ekki að binda mig niður og láta mig skrifa bara einhverja vitleysu bara til þess að skila einhverju inn á vefinn.