Minningar


Það er svo skrítið með minnið á mér, það virkar oftast bara ágætlega en af og til fæ ég skyndilega “flashback” af hlutum sem ég annað hvort mundi ekki eftir eða gat hreinlega ekki munað frá því áður en ég var greindur með þunglyndi og fór að taka lyf við því.

Málið er að mitt þunglyndi er þannig að það hefur veruleg áhrif á Serotonin jafnvægið í líkamanum mínum og það eru oftast öfgar með magnið, annað hvort allt of lítið eða allt of mikið. Serotonin hefur þau áhrif á mig, á meðal annara hluta, að bæta vellíðan og aðstoðar mér að læra nýja hluti, sækja og setja minningar í minnið á mér. Eða, þannig var því allavega lýst fyrir mér á sínum tíma

En vegna þess að ég fæ svo stórar sveiflur í magni Serotonine þá er það ansi oft erfitt, ef ekki ómögulegt, að sækja minningar úr kollinum á mér. Stundum er það svo slæmt að ég man ekkert varðandi einhvern hlut og ég verð að minna mig á að ég á þessa minningu til í heilanum. Sem er satt, minningarnar eru til staðar í kollinum á mér, það eru barað boðleiðirnar sem eru svona tjónaðar.

Hvað er málið þá?

Sko, málið er að fyrst að ég er farin að fá sterkar minningar ansi oft nýverið, minningar af hlutum sem ég hef ekki haft aðgang að í mörg ár, jafnvel áratugi. Síðast, hafa þær verið að þessu húsi.

Grettisgata 40

Grettisgata 40 Úr þessu eru flestar af sterkustu minningum mína komnar. Þetta er í raun fyrsta heimilið sem ég man eftir úr bernsku minni. Þarna bjó ég þegar ég byrjaði í grunnskóla, þarna bjó ég þegar við eignuðumst köttinn okkar Depil sem eyddi allri, langri ævi sinni með okkur. Þó að ég muni samt ekkert eftir að hafa farið í skólann, annað en hvernig gangarnir litu út eða að það var mjólkurvagn, þá man ég helling úr þessu húsi, garðurinn og nágrannar okkar í kring.

Til dæmis þá man ég efitr að herbergið mitt var á neðri hæðinni, kjallaranum, glugginn þarna lengst til hægri. Það var veggur á milli herbergja sem pabbi smíðaði held ég, það var bara eitt stórt herbergi þarna niðri áður en sá veggur var settur upp. Í hinu herberginu var systir mín. Efri hæðinni var skipt í tvo parta, stofan, séð vinstra megin á myndinni, var með tvo glugga og hægra megin var eldhúsið með einum glugga.

Mig dreymir reglulega þetta hús, en í öllum þeim draumum hafa innanmál verið gjörbreytt og húsið oftast stærra að innan en utan. Stundum dreymir mig að húsið sé hreinlega eins klifurkastali, stangir og grip út um allt, þröngir inngangar inn í herbergi sem þarf að skríða í gegnum en í draumum er húsið aldrei bara með tvær hæðir heldur.

Nýrri minningar sem ég hef verið að fá eru um hvernig húsið var í raun, ekki drauma-bullið. Ég man eftir lykt, áferð hluta og td teppinu í herberginu mínu. Ég man hversu mörg skref voru í stiganum sem lá frá inngangnum inn í eldhúsið niður á neðri hæðina. Ég man eftir glugganum sem var á miðri leið niður stigann, sem var svo kominn undir pallinn sem pabbi smíðaði fyrir aftan húsið (það sést aðeins í hann þarna á myndinni).

Annað sem ég man er að garðurinn var ekki eins villtur og hann er á myndinni, hann var sæmilega vel snyrtur og hugsað um hann. Mikið snyrtilegri en hann er að sjá þarna á myndinni.

Litla hverfis sjoppan

Litla hverfissjoppan

Ég man líka eftir því þegar ég var að leika mér með tveimur bestu vinum mínum í hverfinu, þá var þarna á myndinni þar sem litla sólskyggnið er sjoppa. Þar fór ég stundum og fékk malt og bland í poka. Grindvergkið þarna hægra megin var ekki þarna svo að ég muni þegar ég var yngri samt.

Maltið var í glerflöskum þá rétt eins og það er í dag. En það voru aðrar reglur þá, sem þýddi að ef þú komst með stútinn af malt flösku enn með tappanum á þá fékkstu nýja flösku, sjoppu eigandinn lét svo Ölgerðina fá stútinn og fékk endurgreitt fyrir flöskuna.

Þannig að það sem ég og mínir vinir gerðum var að safna saman nægum pening frá foreldrum okkar fyrir einni stórri malt (1L) sem við svo keyptu, svo fórum við með hana undir tröppurnar sem eru þarna hægra megin á myndinni. Við brutum varlega, eins varlega og þrír strákar undir 10 ára aldri geta, hálsinn á flöskunni þannig að við gætum drukkið úr henni. Svo þegar var búið að tæma hana fórum einn okkar með flöskuhálsinn með áföstum tappanum og fengum nýja flösku. Svo komst upp um okkur þegar við vorum komnir hringinn og sá sem keypti upphaflegu flöskuna var að reyna að fá nýja..

Gamli kofinn á Vitastíg

Gamli kofinn

Þarna til vinstri, þar sem nú er ekkert nema hátt gras og illgresi, var “kofi” sem var byggður úr steinsteypu. Hann var þegar ég aldist þarna upp í hverfinu, í engu viðhaldi, engar rúður í honum og ég man ekki hvort það hafi verið í raun hurð einu sinni. Það var heldur ekkert inn í honum. Þakið var svo í þokkabót hálf fallið, miðjan á því var kominn vel niður fyrir þakskarðið en það stoppaði okkur ekki frá því að nota hann sem “klúbbhús”.

Einna sterkasta minning mín af kofanum var þegar ég ákvað einn daginn að reyna að vera svalur (og mistókst herfilega) með því að stela pakka af sígarettum frá mömmu. Grænn Royal var tegundin og þeir sem vita vita að það er mikið minntu bragð og lykt af þeim. En þetta ákváðum við þrír vinirnir, ég, Grétar og annar (man ekki nafnið) að reyna að reykja.

Jæja, hvað gerðist? Jú við byrjuðum að reykja nokkrar sígarettur, hóstandi og slefandi eins og hálfvitar, eina sem ég man eftir var það hversu illt mér varð í maganum, flökurt af mentholinu og það er enn í dag sem ég fæ smá hroll þegar ég finn lykt af menthol sígarettum.

Svo hvað nú?

Já, það er heldur betur gaman að fá svona minningar upp af og til, mér finnst ég vera að eignast minningarnar aftur á ný, aftur og aftur. Það er ótrúlegt hversu mikið við tökum sem sjálfsögðu að minnið okkar virki vel og að við getum sótt upplýsingar úr því án þess að það sé neitt vandamál. Ég hefði ekkert á móti því að hafa betri aðgang að minningunum mínum sjálfur, það er svo mikið sem ég vil endurheimta og muna aftur.

En það er alltaf morgurdagurinn er það ekki?